Fjársjóðsleit í Geisladiskabúð Valda

Í gær kom ég við í Geisladiskabúð Valda. Fyrir þá sem ekki vita, þá er Geisladiskabúð Valda lítil búð við Laugarveg sem selur notaða geisladiska, vinylplötur, DVD, VHS spólur, kassettur og að sjálfsögðu gamla tölvuleiki! Það er voðalega sérstakt að koma þarna inn. Gangvegurinn er rétt svo nægilega breiður svo tvær manneskjur geti smokrað sér fram hjá hvorri annarri, og á gólfinu og á veggjunum eru rekkar sem eru troðfullir af hulstrum og kössum utan af geisladiskum og fleiru.

geisladiskabud1                                           Ætli smiðurinn sem setti upp hurðina hafi verið fullur?

Það má í raun segja að hver rúmmeter sé nýttur í Geisladiskabúð Valda. Þó svo að búðin sé ekki stór gæti maður verið þarna dögum saman bara að skoða og lesa utan á hulstur án þess að lenda á sama hlutnum tvisvar. Svo er það Valdi sjálfur sem stendur alltaf fyrir aftan afgreiðsluborðið. Valdi er mjög kammó náungi, alltaf til í að spjalla um það sem maður finnur í búðinni hans, og þó svo að ég hafi aðeins komið þangað innan við tíu skipti, þá talar Valdi alltaf við mig eins og við höfum þekkst árum saman. 

geisladiskabud2Himnaríki á jörð.

Ég skoða yfirleitt eitthvað af geisladiskunum og lít rétt svo yfir hvaða DVD myndir eru í hillunum, en það sem ég kem aðallega til að skoða eru NES leikirnir. Þegar ég kom fyrst í Geisladiskabúð Valda í leit að NES leikjum fyrir rúmu ári síðan þá var hann með fjóra bjórkassa fulla af NES leikjum. Í dag eru því miður aðeins tveir kassar eftir, og meiri hlutinn af þeim leikjum eru fremur ómerkilegir og illa farnir. Þegar ég kaupi mér leiki set ég yfirleitt þann staðal að leikurinn sé að mestu leiti órispaður, plasthylkið sé heilt og límmiðinn sé órifinn. Því miður eru ekki margir af leikjunum sem eru eftir hjá Valda í því ásigkomulagi. Ég sá þó þrjá leiki sem ég hafði smá áhuga á og keypti.

                                             Milon's Secret Castle
Milon
Eina ástæðan fyrir því að ég tók þennan leik er vegna þess að ég sá hann í þætti hjá Angry Video Game Nerd. Eins og allir leikir sem koma í þáttunum hans þá er þetta sennilega hræðilegur leikur, en ég verð samt að prufa hann sjálfur til að komast að því. Engu að síður þá lítur hylkið frekar vel út, límmiðinn er í góðu standi, en það er reyndar búið að krota aðeins á hylkið með túss. Það ætti samt ekki að vera mikið mál að ná því af með smá sótthreinsispritti.
 
Mission: Impossible
Mission Impossible
Ég veit eiginlega ekki af hverju ég tók þennan. Ég veit ekkert um þennan leik, en límmiðinn á hylkinu heillaði mig einhvern veginn, á sama hátt og kassar utan af leikjum gripu mann í gamla daga. Myndin þýðir samt ekki endilega að þetta sé góður leikur, þarf að komast að því sem fyrst!
 
 Turbo Racing
Turboracing
Ég er yfirleitt ekki mikið fyrir bílaleiki, og þá sérstaklega ekki gamla 8-bit bílaleiki. En það var einn hlutur sem fékk mig til að kaupa þennan. Aftan á honum er gylltur límmiði sem stendur á; "The Game Pak contains batteries". Það er sem sagt hægt að vista í þessum leik! Ég veit ekki ennþá hvernig það virkar í Turbo Racing. Kannski vistar hylkið bara High Score eða kannski getur maður búið til sinn eigin ökuþór og komið honum upp metorðastigann í kappakstursheiminum. Það kemur í ljós.

Glöggir lesendur tóku kannski eftir því að ég á ennþá eftir að prófa leikina. Venjulega þegar ég fæ nýja leiki í hendurnar þá sting ég þeim beint í gömlu gráu brauðristina og kveiki á. Það er líka nákvæmlega það sem ég gerði þegar ég kom heim í gær, en í þetta skipti blikkaði rauða ljósið framan á NES tölvunni og sjónvarpsskjárinn flökkti. Þetta getur aðeins þýtt einn hlut:

Þetta eru allt bandarískir leikir!

Eins og ég hef komið inn á í annari færslu þá eru allar NES tölvur útbúnar með svokallaðri NES lockout chip. Þessi litla flaga sem er föst við móðurborð tölvunnar les alla leiki sem eru settir í vélina. Ef þú ert með evrópska tölvu og bandarískan leik, þá bannar flagan þér að spila, en það er nákvæmlega það sem ég lenti í. 

En til að segja alveg satt þá er ég búinn að redda þessu. "Hvernig?", spyrðu eflaust lesandi góður. Ég skal útskýra það allt í næstu færslu Wink

Takk fyrir lesturinn!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband