Famicom? Hvað er það?

Þegar það ber á góma að ég safni gömlum tölvuleikjum og ég segist aðallega safna Famicom leikjum þá eru viðbrögðin yfirleitt þau sömu:

Manneskja: "Famicom? Hvað er það?"
Ég: "Famicom er sem sagt stytting á Family Computer, sem er japanska Nintendo tölvan."
Manneskja: "Já ok, ertu sem sagt að safna leikjum fyrir gömlu gráu NES tölvuna?"
Ég: "Já líka, en samt aðallega fyrir Famicom tölvuna. Samt er japanska tölvan ekki grá, heldur hvít og rauð."
Manneskja: "Ha? Af hverju? Eru leikirnir samt ekki sömu? Gráu plasthlunkarnir sem þarf alltaf að blása í?"
Ég: "Ja sko, ekki beint, leikirnir eru sumir þeir sömu en þeir eru á minni hylkjum og í allskyns litum og..."
Manneskja: "Bíddu, bíddu. Eru leikirnir þá ekki allir á japönsku?"
Ég: "Jú reyndar, flestir, sko ..."
Manneskja: "Og hvað, talar þú japönsku?"
Ég: "Nei, ég..."
Manneskja: "Af hverju ertu þá að safna þessu?"
Ég: "..."

Kannski er þetta örlítið ýkt samtal en þau fara yfirleitt eitthvað á þessa leið. Fæstir virðast vita hvað Famicom er, og það að reyna að útskýra hvað Famicom er fyrir viðkomandi myndi fara út fyrir "vinalegt-stutt-samtal", yfir í "einhliða-fyrirlestur-um-eitthvað-sem-viðkomandi-hefur-sennilega-ekki-mikinn-áhuga-á". Því er tilvalið að fara aðeins nánar út í þetta hérna fyrst ég er byrjaður að blogga um þetta á annað borð, og þeir fáu sem eiga eftir að lesa þetta blogg hafa eflaust einhvern áhuga á þessu.

Family Computer, oft kölluð Family Game eða Famicom til styttingar, kom á almennan markað í Japan í júlí árið 1983. Tölvan var gefin út af Nintendo, en að hefja framleiðslu á leikjatölvu á þessum tíma þótti vera frekar djarft, þar sem hrun í sölu á tölvuleikjum hafði orðið fyrr á árinu þar sem margir tölvuleikjaframleiðendur höfðu þurft að draga saman segl sín og jafnvel lýsa yfir gjaldþroti. Tölvan varð gífurlega vinsæl í Japan sem hvatti Nintendo til þess að hefja sölu á vélinni í öðrum löndum. Nintendo hóf því sölu á tölvunni í Bandaríkjunum rúmum tveim árum seinna, en bandaríska tölvan gekk undir nafninu Nintendo Entertainment System, en var jafnan bara kölluð Nintendo eða NES. Tölvurnar höfðu nákvæmlega sömu getu hvað varðaði tölvuleikjaspilun, en bandaríski armur Nintendo breytti útliti tölvunnar svo hún liti heldur út fyrir að vera einhvers konar almennt raftæki, eins og myndbandstæki eða kassettuspilari, frekar en leikjatölva fyrir krakkanna.

FamicomVsNESFamicom tölva ofan á NES tölvu.

Leikjahylkjunum var líka breytt. Japönsku Famicom leikjahylkin eru næstum tvöfalt minni en NES leikjahylkin, og koma í öllum regnbogans litum á meðan NES hylkin eru nánast undantekningarlaust grá. Þrátt fyrir þennan mismun í stærð eru sílikon rafeindaborðin inní hylkjunum jafn stór, sem þýðir að NES hylkin eru flest hálf tóm. Bandaríska Nintendo vildi líkt og með tölvuna reyna að láta hylkin líta út fyrir að vera eitthvað meira en þau voru, og þar af leiðandi voru þau sett í svipaða stærð og VHS spólur. Nintendo hélt sig síðan við bandarísku hönnunina þegar tölvan var flutt yfir á evrópska markaðinn 1986, og þar af leiðandi er gamli grái hlunkurinn Nintendo tölvan sem hinn vestræni heimur þekkir, þrátt fyrir að Famicom tölvan hafi komið út heilum tveim árum á undan. 

SMB3FCNESSuper Mario Bros 3. NES hylki vinstra megin, Famicom hylki hægra megin.

Leikirnir sem komu út fyrir Famicom og NES tölvuna voru margir þeir sömu. Flestir komu fyrst út í Japan fyrir Famicom og voru síðan þýddir yfir á ensku og fleiri tungumál fyrir NES tölvuna. Þó eru margir leikir sem komu aðeins út fyrir Famicom tölvuna og líka þó nokkrir sem komu aðeins út fyrir NES tölvuna. Ástæðan fyrir þessu er að tölvuleikjasmekkur Japana er fremur frábrugðin þeim vestræna. Það er margt sem spilar þar inn í en eitt þeirra var að Japanir vildu yfirleitt hafa leikina sína aðeins erfiðari en þá bandarísku.

Þetta ætti í grunnatriðum að útskýra hvað Famicom er, þó svo að það vanti ennþá töluvert uppá til að útskýra muninn á Famicom og NES til fullnustu. Í framtíðarfærslum á ég eftir að drepa meira á muninum á Famicom og NES leikjum, segja frá Famicom Disk System, ólöglegum Famicom eftirlíkingum og reyna að útskýra betur hvað það er sem gerir Famicom svona heillandi leikjavél til að safna leikjum fyrir.

En ég átti náttúrulega alveg eftir að útskýra af hverju ég stend í því að safna Famicom leikjum. Enda kannski fremur furðulegt að safna leikjum sem eru flestir á tungumáli sem ég skil ekki staf í og voru almennt ekki gefnir út hér á landi. Kem að því í annari færslu!

Takk fyrir lesturinn! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband