Fjársjóðsleit í Góða Hirðirnum

Ég reyni að fara alla vegana einu sinni í mánuði í Góða Hirðirinn til að skoða hluti sem fólk hefur hent í nytjagámana í Sorpu, eflaust hugsandi að viðkomandi hlutur sé ekki alveg kominn yfir í þann flokk að vera rusl. Fyrir þá sem ekki vita hvað Góði Hirðirinn er þá er það skransala sem starfar undir Sorpu. Fólk getur sett heillega hluti í sérstaka nytjagáma í Sorpu og þaðan eru þeir fluttir í Góða Hirðirinn þar sem starfsfólk vegur og metur hvort viðkomandi hlutir eiga skilið framhaldslíf á öðrum heimilum, eða séu í raun sorp sem eigi að henda. Það besta við Góða Hirðirinn er að ágóði af sölu draslsins sem er selt þar rennur til góðgerðamála, þannig að með því að versla í Góða Hirðirnum er maður í raun að styrkja gott málefni í leiðinni. Þegar ég keypti íbúðina mína snemma árs 2004 þá keypti ég meira og minna öll húsgögnin mín í Góða Hirðirnum. Ég man að ég keypti, eldhúsborð, stofuborð, geisladiskastand, útsaumaða mynd af kanínu, 3 stóla, tágaþvottakörfu og 2+3 rósótt sófasett. Í dag eru allir þessir hlutir farnir í Sorpu aftur og kannski enduðu einhverjir aftur í Góða Hirðirnum.

 

bravelittletoaster          Eða kannski eru þeir á ferð um landsbyggðina að leita að mér eins og í Hugrökku Brauðristinni.

Í dag fer ég samt ekki í húsgagnaleit í Góða Hirðirinn. Í rauninni fer ég aldrei í Góða Hirðirinn með væntingar um að labba með eitthvað út, heldur fer ég þangað aðallega fyrir upplifunina. Af einhverjum ástæðum finnst mér ótrúlega gaman að skoða drasl! Það hefur kannski eitthvað með það að gera ég er týpan sem hendi nánast aldrei neinu. Ég á heilan helling af geisladiskahulstrum sem ég er löngu búinn að tína diskunum úr, samt fæ ég mig ekki til að henda þeim! Hvað ef ég myndi allt í einu finna diskinn sem vantaði í hulstrið? Þá myndi ég pottþétt sjá eftir því að hafa hent hulstrinu! Geisladiskastandurinn sem ég talaðu um áðan; ég veit ekki í hve mörg ár hann var niðri í geymslu áður en kærastan náði að sannfæra mig um að henda honum (og í rauninni sé ég ennþá aðeins eftir honum, þetta var flottur standur).

 

geymsla                  Geymslan sem ég mun koma til með að eiga eftir 10 ár ef ég leita mér ekki hjálpar.

Alla vegana, tölum aðeins meira um Góða Hirðirinn. Það er án gríns, hægt að finna allt og ekkert í Góða Hirðirnum. Þar er allt frá líkamsræktartækjum og raftækjum til púsluspila og húsgagna. Ég get labbað þarna um endalaust, skoðandi öskubakka merkta Patreksfirði, VHS spólur á norsku og allar frábæru bækurnar í bókadeildinni. En undirliggjandi ástæðan fyrir því að ég legg leið mína í Góða Hirðirinn er sú að ég vonast alltaf til að finna eitthvað tengt gömlum leikjatölvum. Þess vegna fer ég yfirleitt beint útí horn þar sem vinylplöturnar, geisladiskarnir, kassetturnar og hinir einstaka tölvuleikir eru geymdir. Ef ég safnaði íslenskum dægurlagaplötum þá væri Góði Hirðirinn uppáhalds búðin mín, því þær eru þarna í kílóavís. Þarna er líka alltaf hægt að finna nóg af geisladiskum með Birgittu Haukdal og allskyns ömurlega Eurovision stílaða diska. Kassetturnar eru yfirleitt frekar fáar, en þó er alltaf minnst af tölvuleikjunum. Þar fyrir utan eru einu tölvuleikirnir sem ég hef hingað til séð í Góða Hirðirnum, PC leikir fyrir ungabörn sem eru oftast ennþá í plastinu þar sem þeir hafa ekki selst hjá upphaflega dreifingaraðila, eða lélegir Playstation 2 leikir, sem eru yfirleitt án hulsturs og rispaðir í klessu. Sem sagt hlutir sem ég hef engan áhuga á að eiga.

nesvspottTil vinstri; það sem ég vonast til að finna í Góða Hirðirnum. Til Hægri; það sem ég finn í Góða Hirðirnum.

 Þó er ekki þar með sagt að finni aldrei neitt sem mér líkar í Góða Hirðirnum, þvert á móti er ég alltaf að finna mjög töff hluti þar. Það sem kemst næst því að hafa verið tölvuleikjafundur hjá mér var þegar ég fann frekar sniðugan Batmanleik. Leikurinn var þannig gerður að hann var innbyggður í fjarstýringu sem er tengd beint við sjónvarp með AV köplum. Síðan eru settar rafhlöður í fjarstýringuna, kveikt á tækinu og þá getur maður spilað leik sem er í sirka 16-bit grafík. Kostirnir við tækið eru að það er lítið, meðfærilegt og hægt er að vista leikinn þegar maður slekkur. Ókosturinn er að leikurinn er endurtekningarmikill, leiðinlegur og telst seint sem gamall tölvuleikur. Ef ég man rétt stendur aftaná tækinu "Made in China 2004".

chinesebatman    Í Kína klæðist Batman rauðakvers-rauðum búningi og berst við kapítalista með vafasaman fatasmekk.

En á mánudaginn þegar ég fór í mína mánaðarlegu ferð í Góða Hirðirinn fann ég hlut sem ég er ómeðvitað búinn að vera að leita að allt frá því ég byrjaði að safna Famicom leikjum. Undir rekkanum sem geymir allar misgóðu vinylplöturnar sá ég skúffuhirslu. Skúffuhirslu fyrir kassettur!

PICT0266 Halelúja!

En hvað er svona merkilegt við skúffuhirslu fyrir kassettur? Málið er að snillingurinn sem hannaði plasthylkin sem hýsa Famicom leikina hafði þá í nákvæmlega sömu víddum og kassettuhulstur. Þar af leiðandi eru allir hlutir sem eru hannaðir til að geyma kassettur fullkomnir til að geyma Famicom leiki! 

PICT0270Páfagaukarnir mínir í bakgrunninum að dást að þessu glæsilega nýja húsgagni

Ég á yfir hundrað Famicom leiki og stefni á að eiga fleiri á náinni framtíð. En mig hefur alltaf vantað einhverja almennilega leið til að geyma þá. Hingað til hafa þeir legið í IKEA pappakassa inn í skáp hjá mér, en núna geta þeir staðið í viðarpanelsklæddri skúffuhirslu inn í skáp hjá mér (ég hugsa að kærastan eigi ekki eftir að samþykkja þessa annars fínu hirslu sem stofustáss). Hirslan sjálf er í sæmilegu ásigkomulagi, smá sprunga á bakhliðinni á henni, og litlar rispur, en ég held að það eigi ekki eftir að vera mikið vandamál að lappa upp á það. Eini verulegi gallinn sem ég hef fundið við hirsluna er að rákirnar innan í skúffunum sem eiga að styðja við kassettuhulstrin, eru full grunnar til að styðja við Famicom hylki því þau eru með litlum hökum á neðri partinum. Þannig að ef skúffurnar eru ekki alveg fullar af Famicom hylkjum, þá eiga hylkin það til að detta þegar skúffan er dregin út. Þetta er samt ekki galli sem ég læt fara mikið í taugarnar á mér.
Ég get ímyndað mér að þessi hirsla hafi verið í eigu útvarpsstöðvar einhvern tíman á lífsleið sinni. Ég held það því næstum allar skúffurnar eru merktar með mismunandi tónlistarflokkum. Ein skúffan er til að mynda merkt "kristileg músík", önnur "erlend músík", þriðja "til upptöku" og fjórða "Bubbi" (því allir vita að Bubbi er tónlistarflokkur útaf fyrir sig). Allt í allt er ég mjög ánægður með þessa nýju mublu, enda kostaði hún mig ekki nema 800kr, og hluti af því á eftir að renna til góðs málefnis. 

En læt þetta duga í bili. Fyrir þá sem vilja heimsækja Góða Hirðirinn þá er hann til húsa í Fellsmúla 28. Ef þið sjáið einhverja gamla tölvuleiki þar, felið þá á bak við ástarsögurnar í bókadeildinni, ég sæki þá í næsta mánuði.

Takk fyrir lesturinn!

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Glöð með þig, flottur penni.

Hlakka til að lesa meira frá þér, þó ég hafi takmarkaðan áhuga á tölvuleikjum.

kv Maja.

Maria Helga Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 21.9.2011 kl. 13:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband