Færsluflokkur: Bækur

Bókin Family Computer 1983 - 1994

Í seinustu viku fékk ég sendan pakka frá Bretlandi og í honum var bókin Family Computer 1983 - 1994. Mig hefur langað til að eignast þessa bók allt frá því ég byrjaði að safna Famicom leikjum. Mér skilst að bókin hafi verið gefin út í Japan í tengslum við ljósmyndasýningu sem ljósmyndasafnið í Tokyo stóð fyrir.

Cover1Blái parturinn er einhverskonar aukarykkápa sem ég veit ekkert hvað stendur á

Í bókinni er að finna myndir af öllum Famicom leikjum sem voru gefnir út á árunum 1983 - 1994, en það eru jú árin sem Famicom tölvan og leikir fyrir hana voru í sölu í Japan. Þetta er því kjörin bók fyrir þá sem safna Famicom leikjum, en í bókinni er líka búið að skrifa stutta lýsingartexta fyrir flesta leikina. Allir leikirnir eru samt merktir með útgáfutíma, upprunalega verði þeirra í Jenum og hvaða fyrirtæki gaf þá út. Nú spyrja eflaust flestir; "En er hún ekki á japönsku?". Jú hún er það, en besti parturinn við bókina er að hún er líka á ensku! Öllum efnisgreinum í bókinni er í raun skipt í tvennt, annar parturinn á japönsku og hinn á ensku.

page1Blái textinn er á japönsku, rauði á ensku. Snilld!

Þessi bók hefur ekki verið gefin út að nýju frá fyrstu prentun, og er af mörgum talin vera ein besta skrá yfir Famicom leiki sem safnari getur komið höndum sínum yfir. Þar sem hún var framleidd í takmörkuðu upplagi og er frekar sjaldséð í dag fer hún oft dýrum dómum á Ebay, en það eru dæmi um að hún sé að seljast fyrir allt að 100$. Ég sem betur fer þurfti ekki að borga svona mikið fyrir mína, en ég fékk hana af strák í Bretlandi sem ég þekki í gegnum spjallborð. Hingað komin til landsins borgaði ég rétt tæpar 5000kr fyrir hana, og ég er bara nokkuð sáttur með það verð.

page2Sumir leikirnir fá samt enga lýsingu, bara nafn og hópmynd.

Það er víst önnur bók til sem á að vera betri sem skrá yfir alla Famicom leiki, en hún heitir Famicomplete og er í tveim bindum. Sú bók er samt öll á japönsku og því mun síðri kostur fyrir ójapönsku mælandi safnara. En þessi bók er samt fyrst og fremst ljósmyndabók. Það er í raun mjög takmarkaður fróðleikur í henni, og svo virðist vera sem að enski textinn hafi ekki verið skrifaður af manneskju með ensku að móðurmáli þar sem hann getur verið dáldið engrish-legur á pörtum. Samt eru nokkur viðtöl í bókinni við leikjahönnuði og fleiri sem spiluðu stóran þátt í Famicom byltingunni, en ég á reyndar eftir að lesa þau betur.

page3Hér er viðtal við Shigeru Miyamoto, faðir Super Mario, Zelda og fleiri frægra leikjapersónna.

Það er alveg óendanlega gaman fyrir fólk eins og mig sem hafa þráhyggju fyrir gömlum leikjum að fletta í þessari bók og skoða allar myndirnar. Myndirnar utan á leikjunum eru oft alveg ómetanlega fyndnar, enda er kannski ekki auðvelt fyrir íslenskan strák á mínum aldri að átta sig á hve ólýsanleg japönsk 80's menning var. Þar fyrir utan eru fullt af leikjum í þessari bók sem ég hef aldrei heyrt um, og sumir þeirra eru svo einstaklega japanskir að það er ekki furða að stór hluti af Famicom leikjunum voru aldrei gefnir út hérna vestanhafs. Ég verð að skrifa færslu um það síðar hvað sumir leikirnir sem er lýst í þessari bók eru skrítnir, en það bíður betri tíma. Allt í allt, er ég mjög ánægður með að vera loksins kominn með þessa bók í hendurnar, enda á hún pottþétt eftir að hjálpa mér mikið í þessari tölvuleikjasöfnun hjá mér.

Takk fyrir lesturinn!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband