Færsluflokkur: Spil og leikir

Óvæntur glaðningur í Góða Hirðirnum

Í gær lagði ég leið mína, eins og svo oft áður, í Góða Hirðirinn. Félagi minn hafði lýst yfir áhuga að koma með mér eftir að ég sagði honum að stundum væri hægt að finna ágætis borðspil þarna í misgóðu ástandi, þannig að ég sótti hann og við rúntuðum upp í Fellsmúla. Eins og ég hef sagt áður í annari færslu fer ég aldrei í Góða Hirðirinn með neinar væntingar, enda hef ég hingað til aldrei fundið neitt markvert þar. Spennan við að finna mögulega eitthvað skemmtilegt og upplifunin af því að skoða gamalt drasl er venjulega nægileg fyrir mig. Eins og venjulega strunsaði ég beint í miðlunardeildina, sem var að venju yfirfull af gömlum vinylplötum og geisladiskum. Nokkrir PC tölvuleikir höfðu bæst í tölvuleikjakassann, og aldrei þessu vant ekki svo slæmir leikir, en þarna var meðal annars Alpha Centauri og nýjasti Alone in the Dark leikurinn. Eftir að hafa gramsað aðeins í kassanum hálf áhugalaus rak ég samt augun í eitthvað sem er ekki venjulega að finna í kassanum. Þetta var gamall, þýskur, skákleikur fyrir Sinclair Spectrum!

zxskákEr það bara ég eða hefur myndin á kassanum nasískan boðskap?

Sinclair Spectrum tölvurnar voru framleiddar í Bretlandi árið 1982, en þær höfðu svipaða tölvunargetu og NES tölvurnar og falla því undir 8-bit tölvur. Mér skilst að tölvurnar hafi aðallega verið markaðsettar sem heimilistölvur, en eins og með allar tölvur voru framleiddir leikir fyrir þær til að auka sölu á vélunum. En alla veganna, snúum okkur aftur að ferðinni í Góða Hirðirinn. Þarna var ég sem sagt, haldandi á fyrsta áhugaverða hlutnum sem ég hafði uppgvötað í Góða Hirðirnum frá upphafi. Ég opnaði kassann og viti menn, það var aðeins ein af tveimur kassettum í boxinu. Umrædd kassetta var hvít á litinn, en þá sagði félagi minn að það væri sennilega lítið varið í þennan leik því svörtu kassettuna vantaði og á henni væru eflaust svörtu taflmennirnir. Yngri lesendur gætu verið smá áttavilltir þegar hér kemur við sögu, enda ekki allir sem muna eftir þeim tímum þegar leikir voru ekki einungis á geisladiskum eða niðurhalað beint af netinu. Í gamla daga (í byrjun áttunda áratugarins) voru tölvugögn mest megnis á gagnakassettum (og floppy diskum, en tölum um það síðar). Þessar kassettur eru nákvæmlega eins og tónlistarkassettur (ef þú veist ekki hvað það er þá ættiru kannski að vera að lesa eitthvað annað blogg), nema að gagnakassettur geymdu tölvugögn, til dæmis tölvuleiki, og gat hvor hlið haldið um það bil 660 kílóbæt. Tölvur á borð við Amstrad, Amiga, Commodore 64 og Sinclair Spectrum notuðust við svona kassettur. Gallinn við gagnakassettur er að sjálfsögðu sá að til að komast í gögnin þarf tölvan að spóla kassettunni fram og aftur (og stundum þurfti að snúa henni við) til að komast í gögnin. Þetta gat tekið óralangan tíma, enda var ekki óvenjulegt að það gæti tekið fjölmargar mínutur að hlaða upp einn leik.

datacassetteEf tæknin hefði ekki orðið betri myndi taka níu mánuði að setja upp Windows 7 á nýja tölvu.

En ok, förum aftur (aftur) í Góða Hirðirinn. Ég ákvað þrátt fyrir að leikurinn væri ekki heill að hirða hann, enda kostaði hann ekki nema 50kr og í minnsta lagi myndi hann gefa mér ástæðu til að skrifa eina bloggfærslu. Síðan lá leið okkar í bókadeildina, þaðan í leikfangadeildina og að lokum í raftækjadeildina. Raftækjadeildin er venjulega full af gömlum vöfflujárnum, hraðsuðukötlum, prenturum og örbylgjuofnum, en í gær var hún að mestu leiti tóm. En þá sá ég, í miðri annars tómri hillunni, Playstation 1 tölvu! Ég hugsaði; "Vá! Fyrst gamall leikur og svo gömul tölva, þetta er greinilega happadagurinn minn". Tölvan var reyndar án fjarstýringa og straumbreytis, þannig að það er í raun engin leið til að sjá hvort hún virkar eða ekki. En hún var bara á 500kr þannig ég sló til, það er ekki á hverjum degi sem ég finn EITTHVAÐ í Góða Hirðirnum. En þá kallaði félagi minn á mig og benti á hillu nálægt raftækjadeildinni. "Er þetta eitthvað sem þú hefur áhuga á?", spurði hann. Ég leit í hillunna og missti andlitið af spenningi.

nazifacemelt"Ég er svo spenntur!"

Í hillunni var hrúga af tölvuleikjum, og ég meina HRÚGA. Þetta voru ekki ömurlegir PC leikir með Stafaköllunum eða "finndu 5 villur á þessari mynd" smábarnaleikir. Þetta voru Sega Mega Drive leikir og fullt, fullt, fullt af leikjum fyrir Sinclair Spectrum! Ég fann að það varð skammhlaup í heilanum á mér, ég hafði aldrei fundið neitt þessu líkt áður, hvað þá í þessu magni. Tvær hugsanir fóru af stað í heilanum á mér í kjölfarið:

Hugsun #1: "Kiddó, þú átt kannski Sega Mega Drive tölvu, en þú safnar ekkert leikjum fyrir hana. Hvað þá Sinclair Spectrum? Þetta er úrelt drasl! Haltu þig við Famicom og NES, það er alveg nóg."

Hugsun #2: "GRÍPTU ÞETTA ALLT ÁÐUR EN EINHVER ANNAR KEMUR!!!"

Þar sem seinni hugsunin var greinilega hugsuð með Caps-Lock á og þrem upphrópunarmerkjum, tók ég mark á henni. Ég hljóp og náði í innkaupakörfu, snéri við, og sópaði öllu draslinu ofan í körfuna. Á sama tíma var annar strákur þarna að skoða leikina, en þegar hann sá morðglampann í augunum á mér lagði hann þá frá sér og fór að skoða sófadeildina. Ég labbaði síðan að afgreiðsluborðinu, ennþá undir áhrifum tölvuleikjaæðisins, borgaði fyrir allt draslið og fór út í bíl. Þegar þangað var komið útskýrði ég fyrir félaga mínum að ég væri náttúrulega veikur á geði, sem hann samþykkti skýlaust.

Þegar ég kom heim seinna um kvöldið fór ég að skoða draslið sem ég hafði keypt. Fyrst voru það Playstation TÖLVURNAR, því ég hafði greinilega fundið aðra Playstation tölvu í kaupæðinu og skellt henni í innkaupakörfuna. Hvorug tölvan er með straumbreyti eða fjarstýringum, þannig að ég veit ekkert hvort þær virka eða ekki. En sitthvor tölvan kostaði mig ekki nema 500kr þannig að þetta er svo sem ekki stór missir ef þær reynast vera bilaðar.

ps1x2Önnur er þakin rauðum blettum, vonandi drap ég engan með henni.

Svo voru það Mega Drive leikirnir. Þetta voru sex hylki, þar af eitt ennþá í upphaflega plastkassanum. Fimm af þessum leikjum eru íþróttaleikir, sem ég hef venjulega ekki gaman af, en ég skrifa þetta allt á kaupæðið. Eitt hylkið virðist vera með þrem leikjum á, fótboltaleik, mótorhjólaleik og tetrisklóninum Columns. Þarf að skoða þetta betur þegar ég er búinn að redda mér straumbreyti fyrir gömlu Sega tölvuna mína. Hver leikur kostaði 350kr.

megadriveleikirTakk ókunnugi maður sem henti þessum leikjum

Og seinast en ekki síst, þá er það hrúgan af Sinclair Spectrum leikjunum. Þessi leikir eru algerir demantar. Myndirnar utan á kössunum eru svo frábærlega gamaldags en á sama tíma svo miklu meira töff en það sem er utan á leikjum í dag. Ég þarf pottþétt að skrifa nokkrar bloggfærslur um þessa leiki á komandi vikum. Þetta eru í kringum 40 leikir, en þarna eru skotleikir, íþróttaleikir, ævintýraleikir, bílaleikir, stríðsleikir og allt þar á milli. Þar fyrir utan eru líka tvö forrit þarna, eitt til grafískrar úrvinnslu (sem ég hugsa að sé orðið vel úrelt) og annað sem er ætlað til að kenna fólki að nota Sinclair Spectrum tölvuna. Hvert leikjabox var á 50kr stykkið, þannig að í heildina kostuðu þessir leikir mig 1100kr.

sinclairspectrum1Það eina sem ég þarf núna er 30 ára gömul tölva og endalausa þolinmæði

Allt í allt, er ég hæstánægður með þessi kaup. Það er reyndar rétt að ég get ekki notað neinn af hlutunum sem ég keypti í gær, en ég hugsa að einn góðan veðurdag eigi ég eftir að ramba á alla þá hluti sem ég þarf til þess prufa þessa gimsteina, og þá hluti á ég eflaust eftir að finna í Góða Hirðirnum.

Takk fyrir lesturinn!


Fjársjóðsleit í Geisladiskabúð Valda

Í gær kom ég við í Geisladiskabúð Valda. Fyrir þá sem ekki vita, þá er Geisladiskabúð Valda lítil búð við Laugarveg sem selur notaða geisladiska, vinylplötur, DVD, VHS spólur, kassettur og að sjálfsögðu gamla tölvuleiki! Það er voðalega sérstakt að koma þarna inn. Gangvegurinn er rétt svo nægilega breiður svo tvær manneskjur geti smokrað sér fram hjá hvorri annarri, og á gólfinu og á veggjunum eru rekkar sem eru troðfullir af hulstrum og kössum utan af geisladiskum og fleiru.

geisladiskabud1                                           Ætli smiðurinn sem setti upp hurðina hafi verið fullur?

Það má í raun segja að hver rúmmeter sé nýttur í Geisladiskabúð Valda. Þó svo að búðin sé ekki stór gæti maður verið þarna dögum saman bara að skoða og lesa utan á hulstur án þess að lenda á sama hlutnum tvisvar. Svo er það Valdi sjálfur sem stendur alltaf fyrir aftan afgreiðsluborðið. Valdi er mjög kammó náungi, alltaf til í að spjalla um það sem maður finnur í búðinni hans, og þó svo að ég hafi aðeins komið þangað innan við tíu skipti, þá talar Valdi alltaf við mig eins og við höfum þekkst árum saman. 

geisladiskabud2Himnaríki á jörð.

Ég skoða yfirleitt eitthvað af geisladiskunum og lít rétt svo yfir hvaða DVD myndir eru í hillunum, en það sem ég kem aðallega til að skoða eru NES leikirnir. Þegar ég kom fyrst í Geisladiskabúð Valda í leit að NES leikjum fyrir rúmu ári síðan þá var hann með fjóra bjórkassa fulla af NES leikjum. Í dag eru því miður aðeins tveir kassar eftir, og meiri hlutinn af þeim leikjum eru fremur ómerkilegir og illa farnir. Þegar ég kaupi mér leiki set ég yfirleitt þann staðal að leikurinn sé að mestu leiti órispaður, plasthylkið sé heilt og límmiðinn sé órifinn. Því miður eru ekki margir af leikjunum sem eru eftir hjá Valda í því ásigkomulagi. Ég sá þó þrjá leiki sem ég hafði smá áhuga á og keypti.

                                             Milon's Secret Castle
Milon
Eina ástæðan fyrir því að ég tók þennan leik er vegna þess að ég sá hann í þætti hjá Angry Video Game Nerd. Eins og allir leikir sem koma í þáttunum hans þá er þetta sennilega hræðilegur leikur, en ég verð samt að prufa hann sjálfur til að komast að því. Engu að síður þá lítur hylkið frekar vel út, límmiðinn er í góðu standi, en það er reyndar búið að krota aðeins á hylkið með túss. Það ætti samt ekki að vera mikið mál að ná því af með smá sótthreinsispritti.
 
Mission: Impossible
Mission Impossible
Ég veit eiginlega ekki af hverju ég tók þennan. Ég veit ekkert um þennan leik, en límmiðinn á hylkinu heillaði mig einhvern veginn, á sama hátt og kassar utan af leikjum gripu mann í gamla daga. Myndin þýðir samt ekki endilega að þetta sé góður leikur, þarf að komast að því sem fyrst!
 
 Turbo Racing
Turboracing
Ég er yfirleitt ekki mikið fyrir bílaleiki, og þá sérstaklega ekki gamla 8-bit bílaleiki. En það var einn hlutur sem fékk mig til að kaupa þennan. Aftan á honum er gylltur límmiði sem stendur á; "The Game Pak contains batteries". Það er sem sagt hægt að vista í þessum leik! Ég veit ekki ennþá hvernig það virkar í Turbo Racing. Kannski vistar hylkið bara High Score eða kannski getur maður búið til sinn eigin ökuþór og komið honum upp metorðastigann í kappakstursheiminum. Það kemur í ljós.

Glöggir lesendur tóku kannski eftir því að ég á ennþá eftir að prófa leikina. Venjulega þegar ég fæ nýja leiki í hendurnar þá sting ég þeim beint í gömlu gráu brauðristina og kveiki á. Það er líka nákvæmlega það sem ég gerði þegar ég kom heim í gær, en í þetta skipti blikkaði rauða ljósið framan á NES tölvunni og sjónvarpsskjárinn flökkti. Þetta getur aðeins þýtt einn hlut:

Þetta eru allt bandarískir leikir!

Eins og ég hef komið inn á í annari færslu þá eru allar NES tölvur útbúnar með svokallaðri NES lockout chip. Þessi litla flaga sem er föst við móðurborð tölvunnar les alla leiki sem eru settir í vélina. Ef þú ert með evrópska tölvu og bandarískan leik, þá bannar flagan þér að spila, en það er nákvæmlega það sem ég lenti í. 

En til að segja alveg satt þá er ég búinn að redda þessu. "Hvernig?", spyrðu eflaust lesandi góður. Ég skal útskýra það allt í næstu færslu Wink

Takk fyrir lesturinn!


Hvað voru þeir að hugsa?

Af þeim sirka 100 Famicom leikjum sem ég á eru tæplega 30 þeirra svo kallaðir pirate leikir. Eins og ég er búinn að koma inn á áður þá eru pirate leikir, að vissu leiti, ólögleg framleiðsla í óþökk Nintendo. Flestir pirate leikir eru framleiddir í Asíu og A-Evrópu, og ég held ég geti sagt með nokkurri vissu að alla vegana 90% af pirate leikjum, voru og eru, framleiddir í Kína. Í dag virða flest lönd alþjóðleg höfundarréttarlög, þannig að verslun með varning sem er greinilega einhverskonar eftirlíking getur verið varasöm. Sum pirate fyrirtæki reyna að nýta sér frægð þekktra merkja með því að breyta þeim aðeins, þannig að fólk taki jafnvel ekki eftir því að um svikna vöru sé að ræða. Gott dæmi um slíka hluti væru ADADAS skór, FUMA íþróttatöskur og FONY mp3 spilarar, sem er hægt að finna í kínabúðum erlendis og stundum í kolaportinu.

KnockoffÞetta væri mun stærra vandamál ef Jean Claude Van Damme hefði ekki gert heimildarmynd um þetta

Þetta er líka oftast reyndin í tölvuleikja pirate bransanum, en á þó aðeins meira við tölvurnar sjálfar. Sem dæmi um það getið þið litið á seinustu bloggfærslu mína og séð myndina af Nintendo Famicom tölvu við hliðina á NTDEC Family Game tölvu. Það er ekki tilviljun að þær eru svona líkar, NTDEC tölvan átti greinilega að fljóta á frægðaröldu Famicom tölvunnar. Þetta á misjafnt mikið við þegar kemur að pirated tölvuleikjum. Ef fólk kaupir leikjatölvu á annað borð þá á það eftir að vilja kaupa leiki líka. Þar sem pirate leikir koma oftast í engum kassa og án bæklings, þarf hylkið að segja svo lítið mikið um leikinn til þess að lokka að kaupanda. Það sem flestir pirates gera er einfaldlega að skanna miðann sem var á upprunalega leiknum og setja hann utan á hylkið með örlitlum breytingum. En síðan eru sumir leikir með miðum sem eiga nánast ekkert skilt við leikinn sem hylkið inniheldur. Ástæðan fyrir því er (held ég) að pirate forritararnir hafa aðeins fengið leikinn á stafrænu formi og hafa því þurft að búa til límmiðana utan á leikin eftir því sem þeir héldu að leikurinn væri um. Það sem verður að hafa í huga er að margir þessara pirate leikja eru búnir til áður en internetið varð vinsælt (hvað þá í Kína). Síðan er líka eflaust margt sem er einfaldlega "lost in translation". Hvað myndi til dæmis gerast ef ég myndi senda einn þátt af Næturvaktinni til Indlands án allrar þýðingar og segja þeim að búa til tölvuleik byggðan á þáttunum?

Það sem kemur hérna fyrir neðan eru myndir af fjórum pirate leikjum sem ég á, þar sem límmiðarnir hafa örugglega verið gerðir án mikillar vitneskju um hvað leikurinn snerist um. Fyrst kemur samt mynd af upprunalega leiknum til samanburðar. Ég mæli með því að þið smellið á myndirnar til að sjá þær í hærri upplausn.

Batman (Sunsoft 1989)

BatmanfamicomUpprunalega hylkið segir allt sem segja þarf. Það stendur Batman á því, það er stór mynd af Batman-merkinu og það er kolsvart eins og hjarta Bruce Wayne. Það að leikurinn er gefinn út af Sunsoft gefur líka til kynna að hér sé eðal platformer leikur sem flestir geta haft gaman af.

Batmanpirate Fyrir utan gulu hástafina í neðra-hægra horni þessa hylkis er ekkert sem gefur til kynna að þetta sé Batman leikur. Andlitið á myndinni virðist vera einhverskonar albínóavampíra með ör niður eftir andlitinu. Hægra megin við andlitið er ekki Batmanbíllinn frægi, heldur dularfullur og drungalegur vagn dreginn af hestum. Þar fyrir utan flögra misstórar leðurblökur útum allan límmiðann, en ég er ekki viss hvort það sé til bóta.
 
Hvað var listamaðurinn að hugsa: "Hmm... Bat... Man... Semsagt einhvers konar leðurblökumaður? Þetta hlitur að vera leikur um vampírur þannig ég teikna bara mynd af Nosferatu."
 
 
                               Super Mario Bros. (Nintendo 1985)
 
supermariobrosfamicom
Flott hylki út í gegn. Þetta límmiðasnið er klassískt fyrir Nintendo Famicom leikina, smá texti vinstra megin og svo innrömmuð mynd með viðfangsefni leiksins. Myndin er líka vel heppnuð þar sem við sjáum píparann Mario í miðju stökki nýbúinn að kýla goomba. Allt í kringum hann eru síðan óvinir, hlutir, umhverfi og persónur sem maður á eftir að sjá í gegnum leikinn.
 
 SMBVið fyrstu sýn virðist þessi miði vera nánast "copy-paste" af hinum fyrri, en bíðum aðeins við. Hvar er Mario? Af hverju í ósköpunum höfðu þeir fyrir því að endurgera miðann nánast eins og orginalinn en klipptu síðan út aðalpersónuna á síðustu stundu. Meira að segja goombain er ennþá í miðju lofti eftir að einhver ósýnilegur kraftur kýldi hann.
 
Hvað var listamaðurinn að hugsa: "Vel gert ég! Lýtalaus endurgerð! Myndin er samt full þröng með þessum rauða kalli í miðjunni, betra að klippa hann bara út."
 
 
                        Teenage Mutant Ninja Turtles (Konami 1990)
 
TurtlesfamicomUpprunalega hylkið er frekar flott! Leonardo, Michaelangelo, Donatello og Raphael eru allir á hjólabrettum, með vopnin munduð og virðast vera að brjóta sér leið í gegnum múrsteinsvegg! Uppí vinstra horninu er síðan klassíska logo-ið sem var notað í allt tengt Turtles; leiki, sjónvarpsþætti og leikföng. Allt í allt mjög lýsandi hylki, það fer ekki á milli mála hvaða leikur þetta er.
 
Turtles2
Bíðum aðeins við, hvað er í gangi hérna? Þetta eru stökkbreyttar skjaldbökur, enginn vafi á því en það er eitthvað ekki rétt við þetta. Voru skjaldbökurnar með sólgleraugu í gömlu þáttunum? Og hvað er málið með vopnin þeirra. Ekki eitt af þessum vopnum gæti talist sem ninjavopn! Einn þeirra er meira að segja með steinaldar steinöxi og skjöld, og annar með BÚMERANG! Svo stendur bara "TURTLE NINJA II" í rauðum prentstöfum neðst. Glatað.
 
Hvað var listamaðurinn að hugsa: "Táningar ganga með sólgleraugu, tjékk. Stökkbreytlingar eru með rasshausa, tjékk. Ninjur... ninjur... veit ekki alveg hvað það er, sleppi því. Skjaldbökur?! Djö... Þá þarf ég að lita þessa baðstrandagæja græna." 
 
Turtle3pirateBónus mynd: Fann þessa mynd í gegnum Google. Svo virðist vera sem listamaðurinn á bak við fyrsta skjaldbökuslysið hafi þótt það góður að hann var fenginn til að teikna mynd utan á "NINJA TURTLES III" líka. Í þetta skipti eru skjaldbökurnar komnar í fjólublá stígvél og hanska, og með svartar andlitsgrímur. Fáránlegu vopnin, sólgleraugun og rasshausarnir eru ennþá til staðar.

 
                                        Ducktales (Capcom 1989)
 
Ducktalesfamicom Ég verð að viðurkenna að ég er persónulega ekkert rosalega hrifinn af þessari hönnunn á límmiða, alla vegana ekki miðað við límmiðann sem var á NES leiknum. En það er samt allt þarna sem til þarf. Mynd af Jóakim Aðalönd, Ducktales logoið í smáum stöfum fyrir neðan japönsku skriftina sem ég býst við að þýði Ducktales líka. Það fer alla vegana ekki á milli mála hver er aðalpersónan í þessum leik.
 
DucktalesJá sæll! Það stendur reyndar Ducktales þarna neðst en... sko... já...

Hvað var listamaðurinn að hugsa: "Leikur um önd sem ferðast um heiminn í kapitalískri auðsöfnun!? Það á engin eftir að vilja kaupa þannig leik. Þessi mynd er mikið maóískri"
 
 
Takk fyrir lesturinn!

Fjársjóðsleit í Góða Hirðirnum

Ég reyni að fara alla vegana einu sinni í mánuði í Góða Hirðirinn til að skoða hluti sem fólk hefur hent í nytjagámana í Sorpu, eflaust hugsandi að viðkomandi hlutur sé ekki alveg kominn yfir í þann flokk að vera rusl. Fyrir þá sem ekki vita hvað Góði Hirðirinn er þá er það skransala sem starfar undir Sorpu. Fólk getur sett heillega hluti í sérstaka nytjagáma í Sorpu og þaðan eru þeir fluttir í Góða Hirðirinn þar sem starfsfólk vegur og metur hvort viðkomandi hlutir eiga skilið framhaldslíf á öðrum heimilum, eða séu í raun sorp sem eigi að henda. Það besta við Góða Hirðirinn er að ágóði af sölu draslsins sem er selt þar rennur til góðgerðamála, þannig að með því að versla í Góða Hirðirnum er maður í raun að styrkja gott málefni í leiðinni. Þegar ég keypti íbúðina mína snemma árs 2004 þá keypti ég meira og minna öll húsgögnin mín í Góða Hirðirnum. Ég man að ég keypti, eldhúsborð, stofuborð, geisladiskastand, útsaumaða mynd af kanínu, 3 stóla, tágaþvottakörfu og 2+3 rósótt sófasett. Í dag eru allir þessir hlutir farnir í Sorpu aftur og kannski enduðu einhverjir aftur í Góða Hirðirnum.

 

bravelittletoaster          Eða kannski eru þeir á ferð um landsbyggðina að leita að mér eins og í Hugrökku Brauðristinni.

Í dag fer ég samt ekki í húsgagnaleit í Góða Hirðirinn. Í rauninni fer ég aldrei í Góða Hirðirinn með væntingar um að labba með eitthvað út, heldur fer ég þangað aðallega fyrir upplifunina. Af einhverjum ástæðum finnst mér ótrúlega gaman að skoða drasl! Það hefur kannski eitthvað með það að gera ég er týpan sem hendi nánast aldrei neinu. Ég á heilan helling af geisladiskahulstrum sem ég er löngu búinn að tína diskunum úr, samt fæ ég mig ekki til að henda þeim! Hvað ef ég myndi allt í einu finna diskinn sem vantaði í hulstrið? Þá myndi ég pottþétt sjá eftir því að hafa hent hulstrinu! Geisladiskastandurinn sem ég talaðu um áðan; ég veit ekki í hve mörg ár hann var niðri í geymslu áður en kærastan náði að sannfæra mig um að henda honum (og í rauninni sé ég ennþá aðeins eftir honum, þetta var flottur standur).

 

geymsla                  Geymslan sem ég mun koma til með að eiga eftir 10 ár ef ég leita mér ekki hjálpar.

Alla vegana, tölum aðeins meira um Góða Hirðirinn. Það er án gríns, hægt að finna allt og ekkert í Góða Hirðirnum. Þar er allt frá líkamsræktartækjum og raftækjum til púsluspila og húsgagna. Ég get labbað þarna um endalaust, skoðandi öskubakka merkta Patreksfirði, VHS spólur á norsku og allar frábæru bækurnar í bókadeildinni. En undirliggjandi ástæðan fyrir því að ég legg leið mína í Góða Hirðirinn er sú að ég vonast alltaf til að finna eitthvað tengt gömlum leikjatölvum. Þess vegna fer ég yfirleitt beint útí horn þar sem vinylplöturnar, geisladiskarnir, kassetturnar og hinir einstaka tölvuleikir eru geymdir. Ef ég safnaði íslenskum dægurlagaplötum þá væri Góði Hirðirinn uppáhalds búðin mín, því þær eru þarna í kílóavís. Þarna er líka alltaf hægt að finna nóg af geisladiskum með Birgittu Haukdal og allskyns ömurlega Eurovision stílaða diska. Kassetturnar eru yfirleitt frekar fáar, en þó er alltaf minnst af tölvuleikjunum. Þar fyrir utan eru einu tölvuleikirnir sem ég hef hingað til séð í Góða Hirðirnum, PC leikir fyrir ungabörn sem eru oftast ennþá í plastinu þar sem þeir hafa ekki selst hjá upphaflega dreifingaraðila, eða lélegir Playstation 2 leikir, sem eru yfirleitt án hulsturs og rispaðir í klessu. Sem sagt hlutir sem ég hef engan áhuga á að eiga.

nesvspottTil vinstri; það sem ég vonast til að finna í Góða Hirðirnum. Til Hægri; það sem ég finn í Góða Hirðirnum.

 Þó er ekki þar með sagt að finni aldrei neitt sem mér líkar í Góða Hirðirnum, þvert á móti er ég alltaf að finna mjög töff hluti þar. Það sem kemst næst því að hafa verið tölvuleikjafundur hjá mér var þegar ég fann frekar sniðugan Batmanleik. Leikurinn var þannig gerður að hann var innbyggður í fjarstýringu sem er tengd beint við sjónvarp með AV köplum. Síðan eru settar rafhlöður í fjarstýringuna, kveikt á tækinu og þá getur maður spilað leik sem er í sirka 16-bit grafík. Kostirnir við tækið eru að það er lítið, meðfærilegt og hægt er að vista leikinn þegar maður slekkur. Ókosturinn er að leikurinn er endurtekningarmikill, leiðinlegur og telst seint sem gamall tölvuleikur. Ef ég man rétt stendur aftaná tækinu "Made in China 2004".

chinesebatman    Í Kína klæðist Batman rauðakvers-rauðum búningi og berst við kapítalista með vafasaman fatasmekk.

En á mánudaginn þegar ég fór í mína mánaðarlegu ferð í Góða Hirðirinn fann ég hlut sem ég er ómeðvitað búinn að vera að leita að allt frá því ég byrjaði að safna Famicom leikjum. Undir rekkanum sem geymir allar misgóðu vinylplöturnar sá ég skúffuhirslu. Skúffuhirslu fyrir kassettur!

PICT0266 Halelúja!

En hvað er svona merkilegt við skúffuhirslu fyrir kassettur? Málið er að snillingurinn sem hannaði plasthylkin sem hýsa Famicom leikina hafði þá í nákvæmlega sömu víddum og kassettuhulstur. Þar af leiðandi eru allir hlutir sem eru hannaðir til að geyma kassettur fullkomnir til að geyma Famicom leiki! 

PICT0270Páfagaukarnir mínir í bakgrunninum að dást að þessu glæsilega nýja húsgagni

Ég á yfir hundrað Famicom leiki og stefni á að eiga fleiri á náinni framtíð. En mig hefur alltaf vantað einhverja almennilega leið til að geyma þá. Hingað til hafa þeir legið í IKEA pappakassa inn í skáp hjá mér, en núna geta þeir staðið í viðarpanelsklæddri skúffuhirslu inn í skáp hjá mér (ég hugsa að kærastan eigi ekki eftir að samþykkja þessa annars fínu hirslu sem stofustáss). Hirslan sjálf er í sæmilegu ásigkomulagi, smá sprunga á bakhliðinni á henni, og litlar rispur, en ég held að það eigi ekki eftir að vera mikið vandamál að lappa upp á það. Eini verulegi gallinn sem ég hef fundið við hirsluna er að rákirnar innan í skúffunum sem eiga að styðja við kassettuhulstrin, eru full grunnar til að styðja við Famicom hylki því þau eru með litlum hökum á neðri partinum. Þannig að ef skúffurnar eru ekki alveg fullar af Famicom hylkjum, þá eiga hylkin það til að detta þegar skúffan er dregin út. Þetta er samt ekki galli sem ég læt fara mikið í taugarnar á mér.
Ég get ímyndað mér að þessi hirsla hafi verið í eigu útvarpsstöðvar einhvern tíman á lífsleið sinni. Ég held það því næstum allar skúffurnar eru merktar með mismunandi tónlistarflokkum. Ein skúffan er til að mynda merkt "kristileg músík", önnur "erlend músík", þriðja "til upptöku" og fjórða "Bubbi" (því allir vita að Bubbi er tónlistarflokkur útaf fyrir sig). Allt í allt er ég mjög ánægður með þessa nýju mublu, enda kostaði hún mig ekki nema 800kr, og hluti af því á eftir að renna til góðs málefnis. 

En læt þetta duga í bili. Fyrir þá sem vilja heimsækja Góða Hirðirinn þá er hann til húsa í Fellsmúla 28. Ef þið sjáið einhverja gamla tölvuleiki þar, felið þá á bak við ástarsögurnar í bókadeildinni, ég sæki þá í næsta mánuði.

Takk fyrir lesturinn!

 

 


Famicom? Hvað er það?

Þegar það ber á góma að ég safni gömlum tölvuleikjum og ég segist aðallega safna Famicom leikjum þá eru viðbrögðin yfirleitt þau sömu:

Manneskja: "Famicom? Hvað er það?"
Ég: "Famicom er sem sagt stytting á Family Computer, sem er japanska Nintendo tölvan."
Manneskja: "Já ok, ertu sem sagt að safna leikjum fyrir gömlu gráu NES tölvuna?"
Ég: "Já líka, en samt aðallega fyrir Famicom tölvuna. Samt er japanska tölvan ekki grá, heldur hvít og rauð."
Manneskja: "Ha? Af hverju? Eru leikirnir samt ekki sömu? Gráu plasthlunkarnir sem þarf alltaf að blása í?"
Ég: "Ja sko, ekki beint, leikirnir eru sumir þeir sömu en þeir eru á minni hylkjum og í allskyns litum og..."
Manneskja: "Bíddu, bíddu. Eru leikirnir þá ekki allir á japönsku?"
Ég: "Jú reyndar, flestir, sko ..."
Manneskja: "Og hvað, talar þú japönsku?"
Ég: "Nei, ég..."
Manneskja: "Af hverju ertu þá að safna þessu?"
Ég: "..."

Kannski er þetta örlítið ýkt samtal en þau fara yfirleitt eitthvað á þessa leið. Fæstir virðast vita hvað Famicom er, og það að reyna að útskýra hvað Famicom er fyrir viðkomandi myndi fara út fyrir "vinalegt-stutt-samtal", yfir í "einhliða-fyrirlestur-um-eitthvað-sem-viðkomandi-hefur-sennilega-ekki-mikinn-áhuga-á". Því er tilvalið að fara aðeins nánar út í þetta hérna fyrst ég er byrjaður að blogga um þetta á annað borð, og þeir fáu sem eiga eftir að lesa þetta blogg hafa eflaust einhvern áhuga á þessu.

Family Computer, oft kölluð Family Game eða Famicom til styttingar, kom á almennan markað í Japan í júlí árið 1983. Tölvan var gefin út af Nintendo, en að hefja framleiðslu á leikjatölvu á þessum tíma þótti vera frekar djarft, þar sem hrun í sölu á tölvuleikjum hafði orðið fyrr á árinu þar sem margir tölvuleikjaframleiðendur höfðu þurft að draga saman segl sín og jafnvel lýsa yfir gjaldþroti. Tölvan varð gífurlega vinsæl í Japan sem hvatti Nintendo til þess að hefja sölu á vélinni í öðrum löndum. Nintendo hóf því sölu á tölvunni í Bandaríkjunum rúmum tveim árum seinna, en bandaríska tölvan gekk undir nafninu Nintendo Entertainment System, en var jafnan bara kölluð Nintendo eða NES. Tölvurnar höfðu nákvæmlega sömu getu hvað varðaði tölvuleikjaspilun, en bandaríski armur Nintendo breytti útliti tölvunnar svo hún liti heldur út fyrir að vera einhvers konar almennt raftæki, eins og myndbandstæki eða kassettuspilari, frekar en leikjatölva fyrir krakkanna.

FamicomVsNESFamicom tölva ofan á NES tölvu.

Leikjahylkjunum var líka breytt. Japönsku Famicom leikjahylkin eru næstum tvöfalt minni en NES leikjahylkin, og koma í öllum regnbogans litum á meðan NES hylkin eru nánast undantekningarlaust grá. Þrátt fyrir þennan mismun í stærð eru sílikon rafeindaborðin inní hylkjunum jafn stór, sem þýðir að NES hylkin eru flest hálf tóm. Bandaríska Nintendo vildi líkt og með tölvuna reyna að láta hylkin líta út fyrir að vera eitthvað meira en þau voru, og þar af leiðandi voru þau sett í svipaða stærð og VHS spólur. Nintendo hélt sig síðan við bandarísku hönnunina þegar tölvan var flutt yfir á evrópska markaðinn 1986, og þar af leiðandi er gamli grái hlunkurinn Nintendo tölvan sem hinn vestræni heimur þekkir, þrátt fyrir að Famicom tölvan hafi komið út heilum tveim árum á undan. 

SMB3FCNESSuper Mario Bros 3. NES hylki vinstra megin, Famicom hylki hægra megin.

Leikirnir sem komu út fyrir Famicom og NES tölvuna voru margir þeir sömu. Flestir komu fyrst út í Japan fyrir Famicom og voru síðan þýddir yfir á ensku og fleiri tungumál fyrir NES tölvuna. Þó eru margir leikir sem komu aðeins út fyrir Famicom tölvuna og líka þó nokkrir sem komu aðeins út fyrir NES tölvuna. Ástæðan fyrir þessu er að tölvuleikjasmekkur Japana er fremur frábrugðin þeim vestræna. Það er margt sem spilar þar inn í en eitt þeirra var að Japanir vildu yfirleitt hafa leikina sína aðeins erfiðari en þá bandarísku.

Þetta ætti í grunnatriðum að útskýra hvað Famicom er, þó svo að það vanti ennþá töluvert uppá til að útskýra muninn á Famicom og NES til fullnustu. Í framtíðarfærslum á ég eftir að drepa meira á muninum á Famicom og NES leikjum, segja frá Famicom Disk System, ólöglegum Famicom eftirlíkingum og reyna að útskýra betur hvað það er sem gerir Famicom svona heillandi leikjavél til að safna leikjum fyrir.

En ég átti náttúrulega alveg eftir að útskýra af hverju ég stend í því að safna Famicom leikjum. Enda kannski fremur furðulegt að safna leikjum sem eru flestir á tungumáli sem ég skil ekki staf í og voru almennt ekki gefnir út hér á landi. Kem að því í annari færslu!

Takk fyrir lesturinn! 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband